Betrunarvist eða refsivist ?

Ég er á því að dómsmálin séu komin í þrot.  Ég er aðallega ósáttur við þrennt:

  1. Ég er ósáttur við að fangelsismálastofnun geti stytt dóma (þ.e. veitt föngum reynslulausn).

    Í lýðræðisríki líkt og á Íslandi er þrískipting valdsins, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald (þó deila megi um sjálfstæði löggjafarvaldsins frá framkvæmdavaldinu). 

    Hvernig stendur þá á því að dómarar dæma t.d. barnaníðing í 6 ára fangelsi sem Fangelsismálastofnun hleypir síðan aftur út í samfélagið vegna góðrar hegðunar eftir 4 ár í fangelsi.  Góð hegðun !  Vist viðkomandi brotamanns er stytt af því að hann býr um rúmið sitt eða segir "takk fyrir mig" eftir matinn (sem hann fær frítt).

    Er það eðlilegt að stofnun framkvæmdavaldsins geti tekið fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu?

  2. Ég er ósáttur við sjálfa dómana - vægi dóma er einkennilegt.

    Ég skil ekki af hverju morðingjar á Íslandi hafa aldrei verið dæmdir í lengri vist en 16 ár.  Á sama tíma virðast menn fá um eitt ár í dóm fyrir hverjar 1.000 e-töflur sem þeir reyna að smygla til landsins.  Ef maður reyndi að smygla til landsins 10.000 e-töflum þá á hann líklega á hættu að fá 10 ára dóm.  Gefum okkur að hann sé að koma frá seglskútu í einhverjum firði seint um kvöld.  Tollvörður sér hann og stöðvar hann.  Smyglarinn á um tvennt að velja. Gefast upp og eiga á hættu að fá um 10 ára dóm eða reyna að sleppa, t.d. með því að myrða tollvörðinn.  Þá gerist annað tveggja.  Hann kemst upp með glæpinn (sem er fínt fyrir hann) eða hann næst og á þá á hættu að fá 16 ára fangelsi.  Áhætta smyglarans er ekki nema 6 ár, í raun ekki nema 4 ár ef hann hegðar sér vel í fangelsinu.  Morðið er hér líklega áhættunnar virði.  Er ekki 16 ára fangelsi of væg refsing fyrir morð?

    Mann fá einnig mun harðari dóm fyrir að stela t.a.m. peningum en að nauðga konum eða aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.  Hvort vilt þú eiga það á hættu að peningum þínum sé stolið eða konu/systur/móður/dóttur þinni sé nauðgað eða að drukkinn ökumaður taki fjölskylduna þína frá þér.  Er ekki mat löggjafar- og dómsvaldsins á refsingu eitthvað brenglað?

    Er eðlilegt að okkur sé boðið upp á það að fangi sem dæmdur er fyrir morð, nauðganir og fíkniefnabrot fái svo til sama dóm og sá sem bara myrðir af því að þar er eingöngu refsað fyrir þyngsta brot?  Er þetta svona "happy hour"?

  3. Ég er ósáttur við þá vist sem afbrotamenn fá.  Refsivist vantar.

    Sumir glæpir eru einfaldlega þess eðlis að brotamenn eiga fyrst og fremst að vera dæmdir til refsivistar (morðingjar, nauðgarar, barnaníðingar).  Í því á ekki að felast sér klefi sem líkist meira hótelherbergi en fangaklefa.

    Ég er á því að maður sem dæmdur er í segjum 25 ára fangelsi fyrir morð eigi fyrir það fyrsta að sitja inn öll 25 árin.  Fyrstu 20 árin væru klárlega refsivist, nokkrir fangar í klefa, engin fríðindi (tölvur, sjónvarp, útvarp), heimsóknir í gegnum "gler", mánudagsmatur alla daga o.s.frv.  Síðustu 5 árin færi hann síðan í betrunarvist (sem væri líkara því sem gerist í dag).  Þar væri unnið að því að byggja viðkomandi upp.

    Önnur brot líkt og barnaníð væru eingöngu refsivist - ekki þessi hótelvist sem boðið er upp á í dag.

Ég skora á Alþingi Íslendinga að gera eitthvað í þessum málum og hugsa þennan málaflokk upp á nýtt frá grunni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband